Heldur virðist hafa hægt á neyslugleði undanfarinna ára á þessu ári ef marka má tölur yfir greiðslukortaveltu. Samkvæmt tölum Seðlabankans nam greiðslukortavelta í aprílmánuði 60,5 milljörðum króna. Af því var velta vegna kreditkortanotkunar 27,9 milljarðar en velta með debetkort nam 32,6 milljörðum í mánuðinum.
Í Morgunkorni Glitnis kemur fram að þróun kreditkortanotkunar og notkunar debetkorta í
innlendum verslunum, raunvirt með vísitölu neysluverðs og
gengisvísitölu, hefur undanfarin ár gefið góða mynd af þróun
einkaneyslu. Samanborið við seinni hluta síðasta árs hefur orðið
allskarpur viðsnúningur í þróun kortaveltu á undanförnum mánuðum. Í
apríl reyndist raunvöxtur slíkrar kortanotkunar 2,5% frá sama tíma í
fyrra. Á fyrsta fjórðungi ársins var raunvöxtur kortanotkunar,
skilgreindur með ofangreindum hætti, 4% að meðaltali.
Vísbending um minni vöxt einkaneyslu
„Greitt
er fyrir stærstan hluta einkaneyslu með greiðslukortum og gefa þessar
tölur því ágæta mynd af þróun hennar. Einkaneysla er stærsti liður
landsframleiðslunnar og hefur þróun hennar því mikil áhrif á hagvöxt.
Miðað við þessar tölur má ætla að hægt hafi umtalsvert á eftirspurn
heimilanna á 1. fjórðungi ársins. Aðrar vísbendingar um einkaneyslu á
borð við væntingavísitölu Gallups hafa einnig gefið til kynna að farið
væri að draga úr þeirri miklu eftirspurn sem ríkt hefur í hagkerfinu
ásamt því að dregið hefur úr aukningu nýskráðra bifreiða. Við reiknum
með því að frekar muni hægja á einkaneyslu þegar líður á árið," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.