Íslensku bankana skortir lánveitanda til þrautavara. Krónan hefur takmarkað markaðshæfi og gjaldeyrisforði er lítill þannig að íslenskir bankar geta ekki fengið sömu lausafjárfyrirgreiðslu og seðlabankar á evrusvæðinu. Þar af leiðandi hljóta bankarnir að hafa hærri lausafjáráhættu en erlendir bankar og greiða hærra áhættuálag. Þetta kom fram í erindi Ásgeirs Jónssonar, forstöðumanns greiningardeildar Kaupþings, á málstofu í Seðlabankanum í gær.
Efni erindis Ásgeirs var einmitt lánveitingar seðlabanka til banka til þrautavara og í máli hans kom m.a. fram að í litlum opnum hagkerfum, eins og því íslenska, eru slíkar lánveitingar háðar því að seðlabankar ráði yfir myndarlegum gjaldeyrisforða. Aukin seðlaprentun geti nefnilega valdið vanda ef heimagjaldmiðill hefur ekki alþjóðlegt greiðsluhæfi og lausaféð sem prentað er leitar úr landi. Þá neyðist bankinn til þess að stýfa lánveitinguna með sölu gjaldeyris á millibankamarkaði.
Besta lausnin á þessum vanda er að mati Ásgeirs innganga í myntbandalag Evrópu en hann leggur áherslu á að einhliða upptaka evru gagnist ekki að þessu leyti enda felur hún ekki í sér stuðning Seðlabanka Evrópu við íslenska bankakerfið.