Umfang uppsagna kom á óvart

Höfuðstöðvar Glitnis á Kirkjusandi.
Höfuðstöðvar Glitnis á Kirkjusandi. mbl.is/ÞÖK

Friðbert Trausta­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka starfs­manna fjár­mála­fyr­ir­tækja, seg­ir að upp­sagn­ir starfs­fólks hjá Glitni í dag hafi ekki verið óvænt­ar þar sem bank­inn hafi upp­lýst sam­tök­in um, að verið væri að skoða öll starfs­manna­mál. Um­fangið hafi þó komið á óvart. Friðbert seg­ist ekki trúa því að aðrir bank­ar grípi til sams­kon­ar aðgerða.

Glitn­ir til­kynnti í dag, að 88 starfs­mönn­um hefði verið sagt upp hér á landi. Friðbert seg­ir, að inni í þeirri tölu séu 23 starfs­menn, sem sagt var upp í apríl en 65 hafi verið sagt upp nú í maí.

Friðbert seg­ir, að Glitn­ir hafi ráðið mun fleiri nýja starfs­menn á síðasta ári en hinir bank­arn­ir vegna þess að áætlan­ir gerðu ráð fyr­ir áfram­hald­andi vexti. „Við viss­um þannig hvað til stóð en þessi stærðargráða kem­ur veru­lega á óvart og hópupp­sagn­ir al­mennt en þetta var leið sem bank­inn valdi að fara."

Friðbert seg­ir, að fjár­mála­fyr­ir­tækj­um beri að upp­lýsa stétt­ar­fé­lagið um það, þegar segja á upp yfir 30 manns eða fleiri í einu. Hann seg­ir að banka­stjóri Lands­bank­ans hafi m.a. lýst því yfir að  ekki standi til að segja upp starfs­fólki hjá þeim en þó séu alltaf ein­hverj­ar upp­sagn­ir í gangi í banka­kerf­inu.

„En það má auðveld­lega ná fram þess­ari hagræðingu, sem menn eru að tala um, gegn­um starfs­manna­veltu, eins og oft­ast hef­ur verið gert. Bank­arn­ir eru með marga í vinnu, þeir hafa alltaf farið í gegn­um upp­gangs­tíma og svo kem­ur niður­sveifl­an líka. Síðast var hún 2001-2. Þá fækkaði veru­lega starfs­mönn­um bank­anna en það var ekki gripið til svona aðgerða. Þá var ekki ráðið í störf en starfs­manna­velta í bönk­um er al­mennt á bil­inu 7-10%," sagði Friðbert.

„Ég held að svona hópupp­sagn­ir skili ekki alltaf til­ætluðum ár­angri. Banka­starf­semi er fyrst og fremst sam­skipti starfs­manna við viðskipta­vini. Það eru mik­il tengsl milli starfs­manna inn­an viðkom­andi fyr­ir­tæk­is og all­ar upp­sagn­ir skilja eft­ir sig sár­indi. Það þarf að vanda sig mjög til að lag­færa þau sár­indi," sagði hann. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK