Umfang uppsagna kom á óvart

Höfuðstöðvar Glitnis á Kirkjusandi.
Höfuðstöðvar Glitnis á Kirkjusandi. mbl.is/ÞÖK

Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir að uppsagnir starfsfólks hjá Glitni í dag hafi ekki verið óvæntar þar sem bankinn hafi upplýst samtökin um, að verið væri að skoða öll starfsmannamál. Umfangið hafi þó komið á óvart. Friðbert segist ekki trúa því að aðrir bankar grípi til samskonar aðgerða.

Glitnir tilkynnti í dag, að 88 starfsmönnum hefði verið sagt upp hér á landi. Friðbert segir, að inni í þeirri tölu séu 23 starfsmenn, sem sagt var upp í apríl en 65 hafi verið sagt upp nú í maí.

Friðbert segir, að Glitnir hafi ráðið mun fleiri nýja starfsmenn á síðasta ári en hinir bankarnir vegna þess að áætlanir gerðu ráð fyrir áframhaldandi vexti. „Við vissum þannig hvað til stóð en þessi stærðargráða kemur verulega á óvart og hópuppsagnir almennt en þetta var leið sem bankinn valdi að fara."

Friðbert segir, að fjármálafyrirtækjum beri að upplýsa stéttarfélagið um það, þegar segja á upp yfir 30 manns eða fleiri í einu. Hann segir að bankastjóri Landsbankans hafi m.a. lýst því yfir að  ekki standi til að segja upp starfsfólki hjá þeim en þó séu alltaf einhverjar uppsagnir í gangi í bankakerfinu.

„En það má auðveldlega ná fram þessari hagræðingu, sem menn eru að tala um, gegnum starfsmannaveltu, eins og oftast hefur verið gert. Bankarnir eru með marga í vinnu, þeir hafa alltaf farið í gegnum uppgangstíma og svo kemur niðursveiflan líka. Síðast var hún 2001-2. Þá fækkaði verulega starfsmönnum bankanna en það var ekki gripið til svona aðgerða. Þá var ekki ráðið í störf en starfsmannavelta í bönkum er almennt á bilinu 7-10%," sagði Friðbert.

„Ég held að svona hópuppsagnir skili ekki alltaf tilætluðum árangri. Bankastarfsemi er fyrst og fremst samskipti starfsmanna við viðskiptavini. Það eru mikil tengsl milli starfsmanna innan viðkomandi fyrirtækis og allar uppsagnir skilja eftir sig sárindi. Það þarf að vanda sig mjög til að lagfæra þau sárindi," sagði hann. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK