Breska viðskiptablaðið Financial Times segir í dag að Glitnir hafi átt í könnunarviðræðum við hugsanlega erlenda fjárfesta um að þeir kaupi hlut í bankanum. Segir blaðið, að í hópi hugsanlegra kaupenda gætu verið erlendur fjárfestir, vogunarsjóðir eða einkafjárfestingarfélög sem gætu talið fýsilegt að kaupa hlut í bankanum þar sem gengi hlutabréfanna er orðið mjög lágt sem og gengi íslensku krónunnar.
Lárus Welding, forstjóri Glitnis, vill ekki tjá sig um einstakar viðræður við blaðið en segir, að bankinn hefði áhuga á að fjölga erlendum hluthöfum
„Við teljum, að margir alþjóðlegir fjárfestar geti séð tækifæri í að fjárfesta á Íslandi þar sem hlutabréfaverð hefur lækkað og gengi íslensku krónunnar einnig," segir Lárus við blaðið. Hann segir að Glitnir sé sjálfur að leita að slíkum tækifærum.