Geir H. Haarde, forsætisráðherra, segir í viðtali við norska viðskiptavefinn E24, að útlán íslensku bankanna heimafyrir séu of lítil um þessar mundir. Íslensku bankarnir verði að gæta þess að þjóna almenningi hvort sem vel eða illa árar.
Geir segir, að markaðurinn hafi nánast hætt útlánum til einkafyrirtækja og almennings. „Við það getum við ekki búið til lengdar. Það sem er kallað lánsfjárþröng hefur einnig náð til Íslands. Það eru of lítil útlán," segir Geir.
Hann segist búast við að áhrifin af háum stýrivöxtum Seðlabankans fari að koma í ljós og að draga muni úr verðbólgu. Þá geti Seðlabankinn byrjað að lækka vexti á ný.
Geir segir, að grunnþættir efnahagslífsins séu sterkir þótt smá mótvindur sé um þessar mundir. Sá mótvindur stafi m.a. af atburðum á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði.