Þau kjör sem Lárusi Welding voru boðin er hann var ráðinn forstjóri Glitnis munu hafa verið í samræmi við það sem tíðkaðist við gerð sambærilegra samninga hjá fjármálafyrirtækjum á þessum tíma. Þetta kemur fram í svari stjórnarformanns Glitnis, Þorsteins Más Baldvinssonar, til Vilhjálms Bjarnasonar, hluthafa í Glitni.
Á aðalfundi Glitnis þann 20. febrúar sl. spurði Vilhjálmur m.a. um hvaða ástæður lágu til þess að gerður var kaupréttarsamningur við forstjóra bankans fyrir 150 milljónum hluta á genginu 26,6, samtals að fjárhæð 3.990.000.000, og hver er áætlaður kostnaður Glitnis banka af þessum samningi?
Unnið að því að fella kauprétti niður
Í svari Þorsteins við spurningum Vilhjálms um kaupréttarsamninga forstjóra og lykilsstarfsmanna kemur fram að unnið er að því um þessar mundir, í samstarfi við lykilstjórnendur, að breyta núverandi fyrirkomulagi og fella niður þá kauprétti sem nú eru í gildi. Tilgangurinn með breytingunum verður fyrst og fremst að koma á nýju fyrirkomulagi þar sem hagur hluthafa og starfsmanna fer betur saman en samkvæmt því fyrirkomulagi sem nú er við lýði.