Flugfélög grípa til ýmissa ráða til þess að bæta afkomu sína. Í dag tilkynnti American Airlines, stærsta flugfélag Bandaríkjanna, að það ætlaði að láta farþega greiða 15 Bandaríkjadali fyrir fyrstu tösku sem viðkomandi innritar í flug. Auk þess sem dregið verður úr áætlunarflugi og starfsfólki sagt upp.
Hlutabréf AMR, móðurfélags American Airlines, lækkaði um 12,3%, í 7,20 dali, í Kauphöllinni í New York eftir að tilkynnt var um breytingarnar sem miða að því að draga úr kostnaði samhliða hækkandi eldsneytisverði.
Farangursgjaldið verður tekið upp þann 15. júní og á sama tíma verður farþegum gert að greiða hærra gjald fyrir veitta þjónustu hjá félaginu.
American Airlines ætlar að fækka áætlunarflugferðum um 11-12% í innanlandsflugi á fjórða ársfjórðungi en áður hafði félagið tilkynnt um að samdrátturinn yrði 4,6% miðað við sama tímabil í fyrra.
Í tilkynningu frá AMR kemur fram að American Eagle muni einnig draga saman seglin í áætlunarflugi með tilheyrandi uppsögnum starfsfólks.