Gengi bréfa Moody's hrapar

Gengi hlutabréfa alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody's lækkaði um 16,2% í kauphöllinni í New York eftir að frétt birtist í breska viðskiptablaðinu Financial Times í dag um að  Moody's hefði leynt því  að villa í tölvuforriti olli því að tilteknir afleiðusamningar fengu árið 2006 hæstu lánshæfiseinkunn en einkunnin hefði með réttu átt að vera mun lægri. 

Moody's segir í yfirlýsingu, að verið sé að yfirfara málið í heild en það væri í ósamræmi við starfsreglur fyrirtækisins að breyta aðferðafræði til að breiða yfir mistök.

FT vísaði í innanhússkjal frá Moody's sem virðist benda til þess, að háttsettir stjórnendur fyrirtækisins hafi vitað af tölvuvillunni í byrjun síðasta árs og að lánshæfiseinkunn afleiðusamninganna kynni að lækka um fjóra flokka ef villan yrði leiðrétt. Umrædd einkunn var ekki lækkuð fyrr en í byrjun þessa árs.

Fram kemur í Vegvísi Landsbankans í dag, að talið er að hrun á markaði með svonefnda CPDO afleiðusamninga hafi valdið mörgum fjárfestum búsifjum þar sem sumir töpuðu allt að 90% af fjárfestingu sinni á skömmum tíma. Þá átti hrun í þessum samningum einnig mikinn þátt í því að þrýstingur hefur verið á markaði fyrir afleiður tengdar skuldatryggingum og vísitölum tengdum þeim undanfarna mánuði.

Afleiðusamningarnir sem um ræðir komu fram á seinni stigum „lánsfjárbólunnar" á árinu 2006. Þeir fyrstu voru á vegum ABN Amro fjárfestingabankans en fljótlega fóru aðrir fjárfestingabankar að bjóða samskonar samninga. Afleiðurnar voru byggðar á væntingum um þróun álags á skuldir fyrirtækja með Aaa lánshæfiseinkunn  en gáfu fjárfestum von um örugga ávöxtun upp á 200 punkta yfir LIBOR vöxtum. Á sama tíma gat fjárfestir sem keypti skuldabréf fyrirtækja með Aaa einkunn ekki vænst nema 20 punkta ávöxtunar yfir LIBOR. 

Í Vegvísi segir, að það hafi komið  mörgum í opna skjöldu að Moody's skyldi veita afleiðusamningunum hæstu lánshæfiseinkunn. Greinendur CreditSights sögðust t.d. ekki getað hrakið einkunn Moody's en sögðust samt vantreysta aðferðafræðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka