Fjármálaeftirlitið hefur vísað máli til ríkislögreglustjóra en þar leikur grunur á um að átt hafi sér stað markaðsmisnotkun. Í hlut eiga tveir starfsmenn fjármálafyrirtækis og tengist málið viðskiptum eða tilboði um viðskipti með tiltekinn skuldabréfaflokk rétt fyrir lokun sex viðskiptadaga sem véku talsvert frá fyrirliggjandi kauptilboðum sömu viðskiptadaga.
Fjármálaeftirlitið vísar til lagaákvæðis þar sem segir að tilboð sem gefa eða séu líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna séu talin vera markaðsmisnotkun en slíkt er óheimilt samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti.
Til slíkra atvika teljast kaup eða sala fjármálagerninga við lokun markaðar, sem er misvísandi gagnvart fjárfestum sem taka ákvarðanir á grundvelli lokaverðs.