Bankastjórn Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum í 15,50%. Bankinn hækkaði stýrivexti síðast þann 10. apríl sl. um 0,50% en auk þess hækkaði bankinn stýrivexti um 1,25% á auka vaxtaákvörðunardegi í mars. Er það mesta hækkun stýrivaxta síðan núverandi fyrirkomulag peningamála var tekið upp.
Ákvörðun Seðlabankans er í takt við spá greiningardeilda Kaupþings og Landsbankans en greining Glitnis spáði því að stýrivextir yrðu hækkaðir um 0,25% að þessu sinni.
Klukkan 11 verður fréttamannafundur bankastjórnar sendur út á vef bankans. Þar verða færð rök fyrir vaxtaákvörðun bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Næsti vaxtaákvörðunardagur bankastjórnar Seðlabanka Íslands er 3. júlí nk. og þann dag verða Peningamál gefin út.