Standard & Poor's íhugar nú að lækka lánshæfismat á skammtímaskuldabréfum samkeppnisaðilans Moody's eftir að í ljós kom að tölvuvilla olli því að Moody's gaf ákveðnum tegundum skuldavafninga kerfisbundið of háar lánshæfismatseinkunnir. Segir í tilkynningu S&P að gera megi ráð fyrir tekjusamdrætti hjá Moody's í framtíðinni. Gengi bréfa Moody's féll um ein 24% fyrstu tvo dagana eftir að fréttir bárust af tölvuvillunni, sem vart gleður auðjöfurinn Warren Buffett, sem á stóran hlut í Moody's.