Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í maí hækkaði um 1,37% frá fyrra mánuði. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 12,3% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 11,4%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,4% sem jafngildir 28% verðbólgu á ári (32,7% fyrir vísitöluna án húsnæðis). Verðbólga mæld á tólf mánaða tímabili hefur ekki verið jafn mikil frá því í ágúst 1990 eða í tæp átján ár er hún mældist 14,2%. Í maí í fyrra mældist verðbólgan 4,7% en 4% í júní.
Verð á bensíni og olíum hækkar um 5,7%
Vísitala neysluverðs án
húsnæðis hækkaði um 1,48% frá apríl. Gengissig
krónunnar og erlendar verðhækkanir halda áfram að skila sér út í
verðlagið og hækkaði verð á innfluttum vörum um 1,7% (vísitöluáhrif
0,61%). Verð á bensíni og olíum um 5,7% (0,26%). Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 1,9% (0,23%).
Kostnaður
vegna eigin húsnæðis lækkaði um 0,2% (-0,04%). Þar af voru áhrif af
lækkun markaðsverðs -0,15% en áhrif af hækkun raunvaxta voru 0,11%. Þá
hækkaði kostnaður vegna viðhalds og viðgerða húsnæðis um 5,7% (0,27%).
Meiri hækkun heldur en greiningardeildir spáðu
Er þetta meiri hækkun á vísitölu neysluverðs heldur en greiningardeildir bankanna spáðu. Greiningardeild Landsbankans spáði 1,2% hækkun vísitölunnar, Greiningardeild Kaupþings spáði 1,6% hækkun og Greining Glitnis spáði 1,2% hækkun vísitölu neysluverðs í maí.
Þróun verðbólgunnar frá árinu 1988