Verðbólguhraðinn hefur að öllum líkindum náð hámarki, þótt ætla megi að tólf mánaða verðbólga aukist eitthvað á næstunni, að mati Ásgeirs Jónssonar, forstöðumanns greiningardeildar Kaupþings. Verðbólga var 1,4% í maí, sem þýðir að tólf mánaða verðbólga er nú 12,3%.
Ásgeir segir að áhrif gengisfalls krónunnar í mars hafi komið hraðar fram en gert var ráð fyrir, en mismunandi vörur bregðast mishratt við gengisbreytingum. Gengi krónunnar hafi styrkst töluvert undanfarnar vikur sem ætti m.a. að draga úr gengisáhrifum á næstu mánuðum.
Bendir Ásgeir á að tólf mánaða verðbólga sé eðli málsins samkvæmt söguleg því litið sé aftur í tímann. Segist hann hins vegar búast við því að verðbólga næstu tólf mánuði verði nær 4%. „Allt bendir til þess að kólnunin í hagkerfinu verði fremur hröð. Það er einföld þumalfingurregla að um 20% vísitölu neysluverðs ráðist af fasteignaverði en 40% af gengi krónunnar með verðáhrifum á innfluttar neysluvörur. Nú þegar er kólnun komin fram á fasteignamarkaði og ef stöðugleiki kemst aftur á á gjaldeyrismarkaði hefur þegar verið komið nokkrum böndum á verðbólguna. Framhaldið veltur á því að það náist þjóðarsátt í því að gildandi kjarasamningum verði ekki sagt upp að ári og komið verði í veg fyrir víxlhækkun launa og verðlags.“