Vanskil fyrirtækja og einstaklinga við innlánsstofnanir eru tekin að aukast á ný eftir nær samfellda lækkun frá seinni hluta árs 2002. Athuga ber að útlánaaukningin á undanförnum misserum kann að koma fram í auknum vanskilum síðar, að því er segir á vef Fjármálaeftirlitsins.
Fjármálaeftirlitið hefur tekið saman tölur um vanskil útlána hjá innlánsstofnunum miðað við lok mars 2008 og samanburð við næstu ársfjórðunga á undan. Talnaefnið nær til vanskila sem staðið hafa lengur en 1 mánuð. Um er að ræða brúttó vanskil, þ.e. ekki hafa verið dregnar frá fjárhæðir sem lagðar hafa verið til hliðar sem sérstakar afskriftir.
Yfirlitið sýnir að hlutfall vanskila af útlánum í lok 1. ársfjórðungs 2008 er 0,5% samanborið við 0,4% í árslok 2007. Í lok 1. ársfjórðungs 2007 var hlutfallið 0,6%.
Vanskil fyrirtækja 0,5%
Vanskilahlutfall fyrirtækja er 0,5% í lok 1. ársfjórðungs 2008 samanborið við rúmlega 0,3% í árslok 2007. Í lok 1. ársfjórðungs 2007 var hlutfallið 0,6%. Vanskilahlutfall fyrirtækja miðað við eins árs tímatöf er 0,9% samanborið við 0,5% í árslok 2007.
Vanskil fyrirtækja hafa vaxið lítillega á fyrsta árfjórðungi þessa árs en eru enn svipuð og verið hefur síðastliðin tvö ár sem sýndu mun lægri vanskilahlutföll en voru á tímabilinu 2001 til 2004
Vanskil einstaklinga 0,8%
Vanskilahlutfall einstaklinga er tæplega 0,8% í lok 1. ársfjórðungs 2008
samanborið við 0,7% í árslok 2007. Í lok 1. ársfjórðungs 2007 var hlutfallið
rúmlega 0,8%. Vanskilahlutföll einstaklinga miðað við eins og tveggja ára
tímatöf eru 1,0% og 1,1% samanborið við 0,8 og 1,1% í árslok 2007. Vanskil
einstaklinga hafa vaxið lítillega á ársfjórðungnum en eru enn með lægsta móti
samanborið við tölur fyrri ára.
Ragnar Hafliðason hjá Fjármálaeftirlitinu segir á vef FME: „Vanskil útlána hjá
innlánsstofnunum í lok fyrsta ársfjórðungs 2008 eru byrjuð að vaxa á ný eftir
nær samfellda lækkun frá árinu 2002. Vanskilahlutföllin eru þó enn svipuð og þau
voru á árunum 2006 og 2007.“