Undirrituð hefur verið viljayfirlýsing um að erlendur fjárfestir muni fjárfesta fyrir 48.3 milljónir evra í nýju hlutafé í Alfesca. Í tilkynningu segir að vilji standi til að fjárfestingin verði með þeim hætti að keypt verði í áskrift 850,000,000 nýrra hluta sem hver verði að nafnverði ein íslensk króna, og verði áskriftarverðið á genginu 6,45 fyrir hvern hlut, sem felur í sér 6,9% afslátt miðað við gengi hluta í Alfesca við lok viðskipta föstudaginn 23. maí 2008. Um er að ræða, ef til kemur, 12,6% af heildarhlutafé Alfesca.
Mun hinn erlendi fjárfestir hafa uppi áform um að stofna eignarhaldsfélag hér á landi sem mun halda utan um hlutafjáreignina í Alfesca. Standa vonir til að gengið verði frá fjárfestingunni innan fárra vikna.