Hafið er tveggja ára stöðnunarskeið í íslensku efnahagslífi og tímabil þar sem hagkerfið nær jafnvægi eftir hraðan hagvöxt og þenslu síðustu ára. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Glitnis sem kynnt var á blaðamannafundi í dag. Glitnir spáir því að hagvöxtur verði nánast enginn á þessu og næsta ári samhliða því sem verðbólga mun hjaðna og viðskiptahallinn minnka.
Að sögn Ingólfs Benders, forstöðumanns Greiningar Glitnis, er útlit fyrir mikinn samdrátt á fasteignamarkaði meðal annars þar sem eftirspurnin hefur snarminnkað.
Að sögn Ingólfs eru ytri aðstæður hagkerfinu óhagstæðar. Áhrif lánsfjárkreppunnar hafa verið víðtæk og langvinn.
„Hægt hefur á hagvexti á heimsvísu af þeim sökum. Þá er olíu- og hrávöruverð afar hátt í sögulegu samhengi. Í ofanálag er hagkerfið að takast á við endalok umfangsmikilla stóriðjuframkvæmda og niðurskurð aflaheimilda. Það er því margt sem dregur niður hagvöxtinn hér á landi um þessar mundir," að því er segir í nýrri þjóðhagsspá Glitnis.
Fram kemur í skýrslunni að innlend eftirspurn mun dragst saman bæði í ár og á næsta ári en á móti komi bati á utanríkisviðskiptum. „Ágjöfin á þjóðarbúskapinn verður þannig til að hraða nauðsynlegri þróun í átt til jafnvægis eftir ójafnvægi undanfarinna ára. Við gerum ráð fyrir að viðskiptahalli verði ríflega 14% af landsframleiðslu á þessu ári en minnki í tæp 10% strax á næsta ári."
Segir Ingólfur að þrátt fyrir að horfur til skemmri tíma séu ekki góðar en bjartara sé framundan, gangi spáin eftir.