Verð á hráolíu til afhendingar í júlí fór niður fyrir 127 dali tunnan í viðskiptum í Asíu í morgun. Skýrist lækkunin, sem er tæpir þrír dalir á tunnuna, einkum af því að líkur eru taldar á því að eftirspurn eftir olíu eigi eftir að dragast saman vegna verðhækkana að undanförnu.
Undir morgun voru viðskipti með olíu á 126,70 dali tunnan sem er lækkun um 2,15 dali frá því í gærkvöldi er lokaverð á olíu til afhendingar í júlí var 128,85 dalir tunnan. Engin viðskipti voru á NYMEX hrávörumarkaðnum í New York á mánudag vegna frídags. Er verð á hráolíu nú 8 dölum lægra heldur en á fimmtudag í síðustu viku er það fór í 135,09 dali tunnan sem er hæsta verð sem greitt hefur verið fyrir olíutunnuna á markaði.
Verð á Brent Norðursjávarolíu lækkaði einnig á markaði í Lundúnum í morgun og er nú 126,17 dalir tunnan sem er lækkun um 2,12 dali tunnan frá því í gær.