Litlar breytingar urðu á hráolíuverði í viðskiptum í nótt frá því á föstudag. Er olíutunnan nú seld á um 128 dali sem er talsverð breyting frá því fyrir rúmri viku er tunnan var seld á rúma 135 dali. Eru nú taldar líkur á að heldur muni hægjast á olíuverðshækkunum á næstu vikum þar sem dregið hefur úr eftirspurn eftir eldsneyti, sérstaklega í Bandaríkjunum.
Verð á hráolíu til afhendingar í júlí hækkaði um 9 sent í nótt og er 127,44 dalir tunnan í rafrænum viðskiptum á NYMEX hrávörumarkaðnum í New York. Í Lundúnum hefur engin breyting orðið á verði á Brent Norðursjávarolíu í dag en verðið á henni er 127,78 dalir tunnan.