Til þess að koma í veg fyrir að bólur af þeirri gerð sem þöndust út á hérlendum fasteignamarkaði undanfarin ár myndist á ný mættu stjórnvöld íhuga að færa Seðlabanka Íslands reglugerðarvald til þess að takmarka veðhlutföll. Þetta er álit Arnórs Sighvatssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, sem í gær hélt erindi á málstofu hagfræðideildar Háskóla Íslands undir yfirskriftinni „Ræður Seðlabankinn við verðbólguna?“
Margoft hefur komið fram í umræðunni um efnahagsmál að undanförnu að hendur bankans séu bundnar í baráttunni við verðbólgu því hann hefur aðeins eitt stjórntæki til ráðstöfunar, stýrivexti. Í erindinu sagði Arnór að hafi stjórnvöld áhyggjur af því að of fá vopn séu í vopnabúri Seðlabankans gætu þau íhugað að færa honum fleiri vopn í hendur.