Til þess að koma í veg fyrir að bólur af þeirri gerð sem þöndust út á hérlendum fasteignamarkaði undanfarin ár myndist á ný mættu stjórnvöld íhuga að færa Seðlabanka Íslands reglugerðarvald til þess að takmarka veðhlutföll. Þetta er álit Arnórs Sighvatssonar, aðalhagfræðings Seðlabankans, sem í gær hélt erindi á málstofu hagfræðideildar Háskóla Íslands undir yfirskriftinni „Ræður Seðlabankinn við verðbólguna?“
Margoft hefur komið fram í umræðunni um efnahagsmál að undanförnu að hendur bankans séu bundnar í baráttunni við verðbólgu því hann hefur aðeins eitt stjórntæki til ráðstöfunar, stýrivexti. Í erindinu sagði Arnór að hafi stjórnvöld áhyggjur af því að of fá vopn séu í vopnabúri Seðlabankans gætu þau íhugað að færa honum fleiri vopn í hendur.
Hækkun hlutfalla kynti undir
„Þróun á íbúðamarkaði gegndi lykilhlutverki í þeirri einkaneyslu- og lánabylgju sem hér hefur ríkt undanfarin ár. Hækkun hámarkslána og veðhlutfalla áttu ásamt lágum alþjóðlegum vöxtum ríkan þátt í að kynda undir henni. Vilji stjórnvöld læra af reynslunni gætu þau íhugað að fela Seðlabankanum reglugerðarvald til þess að takmarka veðhlutföll, ekki bara Íbúðalánasjóðs heldur bankakerfisins í heild, líkt og gert hefur verið í Hong Kong og S-Kóreu. Þá hefði Seðlabankinn væntanlega lækkað veðhlutföll þegar stjórnvöld og bankarnir ákváðu að hækka þau,“ sagði Arnór en færa má rök fyrir því að með slíkum aðgerðum hefði a.m.k. mátt draga töluvert úr þensluhraða eignaverðsbólunnar. Taka ber fram að í erindi sínu lagði Arnór mikla áherslu á að um hans eigin skoðanir væri að ræða en ekki Seðlabankans.