Geir H. Haarde, forsætisráðherra, telur að ekki sé útilokað að svartsýnisspár um efnahagshorfur á Íslandi gangi ekki eftir. Þetta kemur fram í viðtali við Geir á vef Bloomberg fréttastofunnar. Segist Geir ekki sannfærður um að hagvöxtur verði neikvæður á Íslandi en samkvæmt skýrslu OECD er því spáð að hagvöxtur verði neikvæður um 0,4% á næsta ári.
Segir Geir í viðtalinu að það sé eitt af verkefnum ríkisstjórnarinnar að tryggja það að ekki verði samdráttur í efnahagslífinu.
Bæði fjármálaráðuneytið og seðlabankinn hafa spáð samdrætti, þeim fyrsta frá árinu 1992.
Bloomberg hefur eftir Geir að hann telji að meiri líkur sé á hækkun á gengi krónunnar heldur en lækkun. „Ég tel að hún muni ná jafnvægi á mun hærri punkti en nú er," segir Geir.
Bloomberg gerir stærð þriggja stærstu bankanna á Íslandi að umtalsefni í greininni þar sem umsvif þeirra séu níu sinnum meiri heldur en landsframleiðslan. Stærð þeirra hafi vakið upp efasemdir um getu Seðlabanka Íslands til þess að lána þeim.
„Stærð bankanna er örugglega eitthvað sem við verðum að skoða," segir Geir. „Og bankarnir verða að gæta vel að sér," bætir hann við í viðtali við Bloomberg.