Þótt stýrivextir Seðlabankans hafi hækkað úr 5,16% í febrúar 2003 í 15,5% í apríl 2008 hefur ekki tekist að hafa hemil á verðbólgunni sem mældist í maí 2008 um 12% á ársgrunni. Þetta kemur fram á vef Samtaka atvinnulífsins.
Frá því í mars 2001 hefur stjórn peningamála á Íslandi verið hagað með þeim hætti að Seðlabanki Íslands beitir stýrivöxtum sínum með það að markmiði að verðbólga verði því sem næst 2,5% „innan ásættanlegs tíma".
Ný rannsókn Axels Hall og Friðriks Más Baldurssonar við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík sýnir að Seðlabankinn spái því ætíð að verðbólgumarkmiði bankans verði náð innan u.þ.b. tveggja ára, óháð því hver verðbólgan er þegar spáin er gefin út, að því er fram kemur á vef SA.