Dregur úr hagvexti en samdráttur ólíklegur

Árni M. Mathiesen.
Árni M. Mathiesen. norden.org/Magnus Fröderberg

Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, segir að líklegt sé að íslenska hagkerfið standi í stað á næsta ári en ekki sé líklegt að alvarlegur samdráttur verði. Síðan muni hagkerfið taka við sér á ný árið 2010.

Árni situr fund norrænna fjármálaráðherra í Stokkhólmi. Reutersfréttastofan hefur eftir honum, að líklega muni verg landsframleiðsla standa nokkurn veginn í stað á næsta ári, hugsanlega vaxa lítillega eða dragast lítillega saman. 

„Ég held ekki að við þurfum að hafa of miklar áhyggjur," segir Árni. „Eins og hlutir hafa þróast er samdráttarhættan aðallega tengd alþjóðlegri þróun." Hann vísar þar til hækkandi verðs á matvælum og eldsneyti."

OECD spáði því nýlega að hagvöxtur á Íslandi verði 0,4% á þessu ári og að á næsta ári verði 0,4% samdráttur. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir einnig 0,4% hagvexti á þessu ári og 0,1% á næsta ári.

Árni segir aðspurður um væntanlega lántöku ríkisins til að styrkja gjaldeyrisforðann, að ekki hafi verið ákveðið hvenær það lán verður tekið eða hve hátt það verður. 

Þá segir hann að staða peningamála hafi batnað á Íslandi á síðustu vikum, einkum þó hjá bönkunum, sem hafi sýnt styrk sinn í þeim ólgusjó sem verið hafi. Það hafi þeir getað vegna þess að þeir séu vel fjármagnaðir og ráði yfir nægu lausafé. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK