Alexei Miller, forstjóri rússneska orkufyrirtækisins Gazprom, sagði á ráðstefnu í Deauville í Frakklandi í morgun, að olíuverð kunni að fara í 250 dali tunnan. Verðið lækkaði í gær um 4 dali og var tæpir 134 dalir í morgun. Alþjóðaorkumálastofnunin segir, að útlit sé fyrir að heldur muni draga úr aukningu á eftirspurn á næstunni.
Miller sagði ekki hvenær hann byggist við að olíuverð næði 250 dala markinu. Verð á hráolíu komst í 139,12 dali á föstudag og hefur aldrei verið hærra.
Alþjóðaorkumálastofnunin sagði í skýrslu í dag, að hátt olíuverð og minni niðurgreiðsla tiltekinna ríkja á eldsneyti muni hægja á vexti eftirspurnar á næstunni. Þá hafi birgðir einnig verið að aukast að undanförnu.
Stofnunin gaf einnig sterklega til kynna, að hún muni setja eigin birgðir á markað ef truflun verður á framleiðslu, t.d. vegna stríðsátaka í olíuframleiðsluríkjum. Hins vegar sé ljóst, að áfram verði spenna á olíumarkaði.
Stofnunin segir, að olíuverðið hafi áhrif á hegðun neytenda víða um heim en þær breytingar muni taka talsverðan tíma. Þá séu flugfélög einnig að draga úr ferðum og neytendur séu að snúa baki við jeppum og öðrum eyðslufrekum samgöngutækjum.