Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch telur að bankar á Íslandi, Írlandi, í Bretlandi og Þýskalandi muni lenda í einna mestum mótbyr evrópskra banka á næstu 12-18 mánuðum.
Þetta kom fram í máli sérfræðinga Fitch á árlegri bankaráðstefnu fyrirtækisins og sagt er frá á vefnum Insurancetimes.
Sérfræðingarnir sögðust telja ólíklegt að evrópskir bankar lendi í frekari vandræðum vegna undirmálslánakreppunnar í Bandaríkjunum. Hins vegar muni bankar í Evrópu þurfa að takast á við erfiða lausafjárstöðu, minnkandi hagnað og lækkandi verð á eignum. Hugsanlegt sé að lánshæfiseinkunnir banka verði lækkaðar á næstunni ef eignasafn þeirra heldur ekki í við almenna þróun í efnahagsmálum.