Drekahagkerfið glatar samkeppnisforskotinu

Það kann að hljóma eins og frá­leit mót­sögn en er engu að síður staðreynd að kín­verski vinnu­markaður­inn kann að standa frammi fyr­ir skorti á vinnu­afli, kunn­ug­leg­um fylgi­fiski langvar­andi hag­vaxt­ar. Um leið gætu ný lög um aðbúnað verka­fólks aukið launa­kostnað veru­lega og aukið á þann kostnaðar­auka sem stöðugar olíu­verðshækk­an­ir hafa haft í för með sér. Með öðrum orðum: Kín­verska efna­hagsundrið, sem hef­ur verið drifið áfram af mikl­um út­flutn­ingi eins og öll hag­vaxt­ar­und­ur Asíu, gæti verið að sigla úr skeiðinu þegar hag­stætt orku­verð og ódýrt vinnu­afl tryggðu því um­tals­vert for­skot á vest­ræna fram­leiðslu.

Vís­bend­ingu um þetta er að finna í grein­ingu er­lendra sér­fræðinga og þeirri til­finn­ingu sem at­hafna­menn hafa fyr­ir þróun kín­verska vinnu­markaðar­ins.

Stephen Moore, grein­ar­höf­und­ur hjá vefút­gáfu Modern Plastics, alþjóðlegs tíma­rits um plastiðnaðinn, vík­ur að þess­ari þróun í ný­legri grein, þar sem hann seg­ir að kín­versku héruðin inn til lands­ins, þaðan sem vinnu­aflið hef­ur streymt til hafn­ar­borg­anna hin síðari ár, séu byrjuð að njóta ávaxta hagsveifl­unn­ar. Þetta þýði að hvat­inn til að freista gæf­unn­ar í borg­un­um sé nú minni fyr­ir verka­menn en verið hef­ur.

Ofan á þetta legg­ist að Kína­stjórn hafi samþykkt rót­tæk­ar breyt­ing­ar á vinnu­lög­gjöf í árs­byrj­un, sem meðal ann­ars kveði á um tvö­fald­ar yf­ir­vinnu­greiðslur fyr­ir vinnu um­fram 48 stund­ir á viku og stofn­un verka­lýðsfé­laga. Þá öðlist verka­fólk rétt­inn til að neita því að sinna hættu­leg­um verk­efn­um í trássi við regl­ur um ör­yggi á vinnu­stöðum.

Moore seg­ir launa­kostnað í Kína nú sam­bæri­leg­an við það sem hann er í mörg­um Suðaust­ur-Asíu­ríkj­um, á borð við hið ört vax­andi hag­kerfi í Víet­nam, auk þess sem skort­ur á vinnu­afli sé far­inn að hamla viss­um iðngeir­um í stór­borg­inni Shang­hai.

Moore vitn­ar í Hozumi Yoda, for­seta Nis­sei Plastic Industrial, fyr­ir­tæk­is sem fram­leiðir búnað til sprautu­steypu á plasti, um að nýju vinnu­afls­lög­in í Kína muni auka launa­kostnað um 40 af hundraði.

Sú þróun gæti reynst himna­send­ing fyr­ir fram­leiðslu búnaðar fyr­ir vél­ræna fram­leiðslu, þar sem manns­hönd­in kem­ur hvergi nærri.

Svo sög­unni sé vikið frá plastiðnaðinum heyr­ast radd­ir af lík­um toga úr ýms­um átt­um. Á vefsíðu Shang­hai Daily seg­ir að hækk­andi orku­verð sé farið að hafa mik­il áhrif á all­an fram­leiðslu­kostnað, sem m.a. komi fram í því að hækk­un verðlags­vísi­töl­unn­ar í maí­mánuði (8,2 af hundraði) hafi verið sú mesta síðan í októ­ber 2004.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK