„Ég held að það séu ansi mörg fyrirtæki í erfiðleikum eða eigi eftir að fara í gegnum erfiðleika,“ segir Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, um stöðuna í íslensku efnahagslífi.
Hann telur ástæðuna helst þá að dýrt er að fjármagna reksturinn og mörg fyrirtæki séu mikið skuldsett.
„Sum þessara fyrirtækja hafa gert alls konar viðskiptaáætlanir og plön miðað við ákveðinn fjármagnskostnað og aðgengi að fjármagni. Og svo er það ekki til staðar þegar það á að endurfjármagna skuldirnar og ávöxtunarkrafan er hærri. Síðan er ljóst að það er mikill samdráttur í eftirspurn,“ segir Sigurður.
Fjöldi fyrirtækja hefur ráðist í viðamiklar fjárfestingar án þess að hafa lokið langtímafjármögnun að mati Sigurðar. Svo nú þegar ljúka á við fjármögnun eru möguleikarnir takmarkaðir og álögur hærri.
„Við erum ekki farin að sjá mikið um uppsagnir á Íslandi. Það er þó farið að vera meira um þær en nokkurn tíma hefur verið. Ég fæ ekki betur séð en að það sé mjög mikið af fyrirtækjum sem þurfa að fækka starfsfólki.“