Ríkið verður af tugum milljarða vegna lækkunar hlutabréfa

Kauphöll Íslands.
Kauphöll Íslands.

„Ég yrði hissa ef það myndi ekki muna einhverjum tugum milljarða í heildarskatttekjur þegar upp er staðið,“ segir Ragnar Árnason, prófessor við hagfræðiskor Háskóla Íslands, um mögulegan tekjumissi ríkissjóðs vegna lækkunar á gengi hlutabréfa.

24 stundir greindu frá því á fimmtudaginn að verðmæti hlutabréfa í félögum í úrvalsvísitölu kauphallarinnar hefði lækkað um 1.600 milljarða króna á tæpu ári.

Víðtæk áhrif á skatttekjur

Ragnar byggir skoðun sína annars vegar á því að þegar hlutabréfin verða seld þá verður söluhagnaðurinn þessum mun minni. „Þannig að ríkið getur á von á því að tekjur af fjármagnsskatti verði lægri en ella hefði orðið á þessu eða næsta ári,“ segir Ragnar. „Síðan þýðir þessi mikla eignaminnkun að einhverjir verða að draga saman seglin og það þýðir auðvitað minni tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti og slíkum sköttum. Og síðan í framhaldi af því af tekjum þeirra sem hefðu hagnast af þeim viðskiptum sem þá hefðu átt sér stað.“

Óveruleg áhrif

Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, segir að samkvæmt endurmetinni tekjuspá ríkissjóðs sé ljóst að einhver lækkun verði á tekjum frá því sem gert ráð fyrir í fjárlögum. „Við gáfum strax til kynna í janúar að ljóst væri að samsetning teknanna myndi breytast og að við byggjumst við eitthvað meiri tekjum af veltuskatti í ár en minni af fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti lögaðila árið 2008. En við teljum að áhrifin ættu að jafnast mikið út þannig að í heild yrðu tekjurnar áþekkar því sem spáð var í haust,“ segir hann og bætir við: „Ef þetta ástand verður viðvarandi þá hefur það meiri áhrif árið 2009.“ Hann segir að ný tekjuspá verði kynnt í haust sem byggja mun á nýrri upplýsingum. „Þetta er í stöðugu endurmati,“ vill Þorsteinn þó benda á.

Mælir með framkvæmdum

Ragnar segir að þrátt fyrir að horfur séu á minni tekjum ríkissjóðs þá sé það ekki ástæða til þess að hætta við opinberar framkvæmdir þó svo að best sé að rasa ekki um ráð fram. „Aðalmálið er að það er óskynsamlegt að draga mikið úr opinberum útgjöldum þegar samdráttur er í hagkerfinu,“ segir hann. „Ef hagkvæmar framkvæmdir eða fjárfestingar eru á takteinum á að nota tækifærið þegar samdráttur er í hagkerfinu, jafnvel þó að það þýði halla á ríkissjóði og halla á rekstri sveitarfélaga,“ bætir hann við. Ragnar segir mikilvægt að nota vinnuaflið og ónýtta framleiðslugetu þegar hún er til staðar en fara sér þeim mun hægar þegar uppsveiflan er.
Í hnotskurn
Verðmæti fyrirtækja í úrvalsvísitölu kauphallarinnar hefur fallið um 1.600 milljarða króna á innan við ári. Úrvalsvísitalan var 9016 stig í lok dags 18. júlí fyrra. Hún var 4439 stig í lok dags í gær.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK