Orkumálaráðherra Bandaríkjanna, Samuel Bodman sagði í dag að ónóg olíuframleiðsla en ekki spákaupmennska með olíu væri ástæðan fyrir hækkandi hráolíuverði á heimsmarkaði.
Bodman lét þessi orð falla í hafnarborginni Jeddah í Sádi Arabíu þar sem orkumálafundur hefst nú um helgina.
Olíuframleiðendur á borð við Sádi Arabíu hafa sagt að framboð af olíu sé nægilegt og segja að spákaupmennsku sé um að kenna.
Sád- Arabar greindu frá því á ráðstefunni að þeir myndu auka olíuframleiðslu sína um 2% í júlí til þess að reyna að koma ró á olíumarkaðinn og um leið stöðva verðhækkanir á olíu. Það þýðir aukningu upp á 200 þúsund tunnur á dag í 9,7 milljónir tunna. Verð á hráolíu hefur tvöfaldast á einu ári og fór á mánudaginn í 139,89 dali tunnan.