FL Group hefur selt alla hluti sín í tveimur íslenskum fasteignafélögum. Um er að ræða 71,7% hlut í Eikarhaldi ehf., móðurfélagi Eikar fasteignafélags og 32% eignarhlut í Fasteignafélagi Íslands. Eikarhald, sem nú heitir Eik Properties ehf., er að mestu í eigu Saxbygg ehf. og Glitnis banka og á nú allt hlutafé í Eik fasteignafélagi og Fasteignafélagi Íslands auk annarra eigna. Salan hefur óveruleg áhrif á afkomu FL Group á öðrum ársfjórðungi 2008, að því er segir í tilkynningu.
Eikarhald tilheyrði samstæðureikningi FL Group frá og með fyrsta ársfjórðungi 2008 sem eign í sölumeðferð. Sala eignarhluta FL Group í þessum fasteignafélögum er eitt af mörgum skrefum í áframhaldandi endurskipulagningu á eignasafni félagsins og í samræmi við fyrirliggjandi stefnumörkun um að fjárfestingar FL Group í fasteignum séu fyrst og fremst í gegnum kjölfestuhlut í Landic Property, samkvæmt tilkynningu.