Forseti OPEC, Chakib
Khelil, sagði í dag að olíuframleiðendur sjái enga ástæðu til þess að auka olíuframleiðslu. Segir Khelil að ástæðu verðhækkana á hráolíu megi rekja til utanaðkomandi aðstæðna svo sem þrýstings Bandaríkjanna á Íran og veikingu Bandaríkjadals.
Khelil sagði þetta eftir fund sem hann átti hjá Evrópusambandinu í dag. Sagði hann að OPEC ríkin telji að framleiðslan sé nóg til þess að uppfylla þarfir markaðarins og birgðastaðan sé góð. „Ég held að markaðurinn sé að bíða eftir því hvernig Bandaríkjadal á eftir að reiða af í júlí. Eins hvernig samspil stjórnmála og landafræði verður vegna hótana í garð Írana," sagði Khelil.
Verð á hráolíu hefur hækkað í dag og er nú rúmir 138 dalir á tunnuna. Verðið hefur hæst farið í tæplega 140 dali.