Hlutabréf deCode, móðurfélags Íslenskrar erfðagreiningar, hækkuðu um 4,49% á Nasdaq í kvöld og er lokagildi félagsins 0,93 dalir á hlut. Allar helstu hlutabréfavísitölur hækkuðu vestanhafs í dag, Nasdaq mest eða um 1,39%. Standard & Poor´s hækkaði um 0,58% og Dow Jones um 0,04% og er lokagildi vísitölunnar 11.811,83 stig.
Þrátt fyrir að Dow Jones hafi hækkað um rúmlega 100 stig eftir að bankastjórn Seðlabanka Bandaríkjanna tilkynnti að stýrivöxtum bankans yrði haldið óbreyttum í 2% þá hafði lækkun hlutabréfa Boeing flugvélaframleiðands neikvæð áhrif á vísitöluna. Hlutabréf Boeing lækkuðu um 6,9% og er lokagildi félagsins 69,64 stig sem er lægsta gildi þess í rúm tvö ár.