Bílaframleiðandinn Volvo, sem er í eigu bandaríska bílaframleiðandans Ford, hyggst segja upp 1.200 starfsmönnum í Svíþjóð. Uppsagnirnar eru liður í hagræðingu í rekstri en félagið ætlar að minnka kostnað um fjóra milljarða sænskra króna, 55 milljarða íslenskra króna.
Á vef Dagens Nyheder kemur fram að uppsagnirnar bitni verst á starfsmönnum Volvo í Gautaborg og Olofström. Inni í tölunni yfir þá sem missa vinnuna eru uppsagnir sem áður hefur verið tilkynnt um í Torslanda verksmiðjunni í Gautaborg.
Jafnframt mun Volvo segja upp samningum við um 500 ráðgjafa og segja upp um 300 manns annars staðar í heiminum.
Fredrik Arp, forstjóri Volvo, segir uppsagnirnar lið í aðgerðum fyrirtækisins við að bregðast við erfiðum aðstæðum á markaði. Lækkun á gengi Bandaríkjadals og hækkandi hráefniskostnaður skipti þar einnig miklu.Tap Volvo á fyrsta ársfjórðungi nam 151 milljón Bandaríkjadala, 12,5 milljörðum króna.