Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,89% frá fyrra mánuði. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 12,7% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 12,1%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 5,8% sem jafngildir 25,1% verðbólgu á ári. En verðbólga án húsnæðisliðar mælist 29,4%.
Verðbólga mæld á tólf mánaða tímabili hefur ekki verið jafn mikil síðan í ágúst 1990 er hún mældist 14,2%.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 275,9 stig og hækkaði um 0,84% frá maí, að því er segir í frétt Hagstofu Íslands.
Eldsneyti hækkaði um 7,2%
Verð á bensíni og olíum hækkaði um 7,2% (vísitöluáhrif 0,35%). Kostnaður vegna eigin húsnæðis hækkaði um 0,4% (0,06%). Þar af voru áhrif af lækkun markaðsverðs -0,04% en áhrif af hækkun raunvaxta voru 0,10%. Greidd húsaleiga hækkaði um 4,3% (0,10%). Þá hækkaði kostnaður vegna viðhalds og viðgerða á húsnæði um 2,0% (0,10%).
Á svipuðu róli og spár greiningardeilda
Greiningardeildir viðskiptabankanna þriggja spáðu 06-1,2% hækkun vísitölu neysluverðs nú í júní. Greining Glitnis spáði 0,6% hækkun. Greiningardeild Kaupþings spáði 1,1% hækkun og greiningardeild Landsbankans 1,2% hækkun.