Líkur á frekari virkjun endurnýjanlegrar orku til orkufreks iðnaðar hafa aukist töluvert undanfarna daga. Þannig virðast verulegar líkur á að ráðist verði í þrenningu rennslisvirkjana í Þjórsá á næstu misserum þar sem þrjú sveitarfélög af fjórum sem fara með skipulagsvald á svæðinu hafa nú samþykkt virkjanirnar fyrir sitt leyti. Í Morgunkorni Greiningar Glitnis kemur fram að fyrirhugaðar framkvæmdir séu heppilegar og líklegar til þess að vega gegn verulegum samdrætti í innlendri eftirspurn á næstu misserum.
Áætlað er að virkjanirnar þrjár hafi samanlagt 265 MW afl, en til samanburðar er afl Kárahnjúkavirkjunar 690 MW. Landsvirkjun ákvað í fyrrahaust að selja ekki orku til nýrra álvera á Suðvesturlandi en gera má ráð fyrir að eftirspurn frá öðrum orkufrekum iðnaði eftir orku Þjórsárvirkjana verði talsverð.
„Í þessu sambandi má rifja upp að Landsvirkjun og Verne Holding hafa samið um orku til netþjónabús sem áætlað er að reisa á Keflavíkurflugvelli, og mun það nýta 25-50 MW rafafls sem líklegt er að komi frá Þjórsárvirkjununum nýju. Verði af byggingu virkjananna þriggja má gera ráð fyrir að framkvæmdir vegna þeirra verði komnar á fullt skrið árið 2010," að því er segir í Morgunkorni Greiningar Glitnis.
Í gær tilkynnt að viljayfirlýsing um rannsóknir á hagkvæmni álvers á Bakka við Húsavík hefði verið framlengd fram til haustsins 2009, en hagkvæmniathuganir hafa skilað jákvæðum niðurstöðum hingað til.
„Við teljum líklegt að
álver Alcoa á Bakka verði að veruleika á næstu árum, en horfur eru á að
slíkt álver geti hafið framleiðslu á fyrri hluta næsta áratugar og gert
er ráð fyrir að það nái fullum afköstum árið 2015. Áætluð orkuþörf
álversins, sem á að afkasta 250 þús.tonna framleiðslu áls á ári, er 400
MW og mun henni verða mætt með nýjum jarðvarmavirkjunum, ásamt stækkun
þeirra sem fyrir eru, á Norðausturlandi.
Orkuverð
hefur farið ört hækkandi á heimsvísu undanfarið og er líklegt til að
haldast hátt næstu árin. Segja má að álframleiðsla og annar orkufrekur
iðnaður sé leið Íslendinga til að flytja út orku með hliðstæðum hætti
og olíuríki selja afurðir sínar á heimsmarkaði, og hátt orkuverð er að
öðru óbreyttu jákvætt fyrir arðsemi af slíkum orkuútflutningi.
Í því ljósi, og með hliðsjón af því hversu fjárfestingarstig í hagkerfinu virðist nú lækka hratt, má segja að ofangreindar framkvæmdir séu heppilegar og líklegar til þess að vega gegn verulegum samdrætti í innlendri eftirspurn á næstu misserum.
Í hagspá okkar sem birt var í lok maí gerðum við ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu orkufreks iðnaðar og nýtingu endurnýjanlegrar orku, og eru ofangreindar fréttir í samræmi við þá spá," að því er segir í Morgunkorni Glitnis.