Útlitið var ekki gott. Lánsfjárkreppan var farin að bíta og norski olíusjóðurinn tekinn að skreppa saman eftir því sem óveðursskýin hrönnuðust upp yfir mörkuðunum. Hlutabréfin stefndu í eina átt, niður á við, og mál manna að það tæki markaðinn að minnsta kosti lungann úr árinu að rétta úr kútnum.
Á sama tíma fór heimsmarkaðsverðið á olíu stighækkandi, úr 68,83 Bandaríkjadölum tunnan í júní í fyrra í um 140 dali tunnan nú, og allar forsendur norska olíusjóðsins skyndilega gerbreyttar. Og ekki er verið að spara stóru orðin um olíuvinnsluna á Norðursjó, upp sé runnið gullaldarskeið í vinnslunni og jafnvel talið að vinnanlegar olíubirgðir séu fimmtungi meiri en talið hefur verið fram að þessu.
Tölurnar tala sínu máli.
Í síðasta mánuði skýrði Åslaug Haga, nokkrum vikum áður en hún lét af embætti ráðherra olíu- og orkumála í norsku stjórninni, frá því að heildartekjur ríkisins úr olíugeiranum á þessu ári væru nú áætlaðar rúmir 6.200 milljarðar króna. Jafngildir það hátt í sjöfaldri vergri landframleiðslu Íslands á liðnu ári.
Þriðjungur tekna norska ríkisins í ár mun því koma úr olíunni og er útlitið óneitanlega bjart í því ljósi að talið er að Norðmenn hafi gengið á sem nemur þriðjung af vinnanlegum jarðefnaeldsneytisbirgðum við landið, þar af um helming olíunnar.
Olíusjóðurinn var settur á legg árið 1990 og er almennt þekktur undir því nafni þótt hann hafi fyrir tveimur árum verið nefndur upp á nýtt, ellilífeyrissjóðurinn Global. Hafa sérfræðingar við eignastýringu sjóðsins spáð því að eignir hans verði orðnar ríflega 4,3 billjónir norskra króna í lok árs 2015 og verður heildarupphæðin þá farin að slaga upp í áttugfalda verga landsframleiðslu íslenska hagkerfisins, miðað við 2007.