Stjórnir Kaupþings og SPRON hafa samþykkt samruna félaganna tveggja. Mun Kaupþing yfirtaka eignir og skuldir SPRON við samrunann. Hluthafar í SPRON munu við samrunann fá greitt fyrir hluti sína í SPRON 3,83 krónur á hlut. Er það lokaverð SPRON í Kauphöll Íslands í gær auk 15% álags.
Markaðsvirði SPRON hefur rýrnað um 64 milljarða á 8 mánuðum
Miðað við það er markaðsvirði SPRON rúmir 19 milljarðar króna en miðað við lokaverð félagsins á fyrsta viðskiptadegi í Kauphöll Íslands 23. október á síðasta ári þá var markaðsvirði SPRON rúmir 83 milljarðar króna. Þetta þýðir að verðmæti sparisjóðsins hefur rýrnað um 64 milljarða króna á rúmum átta mánuðum. Lokaverð SPRON í Kauphöll Íslands í dag var 3,19 og markaðsvirðið því tæpir 16 milljarðar króna.
Fá hluthafar í SPRON 60% greitt með hlutabréfum í Exista og 40% með hlutabréfum í Kaupþingi. Samruninn hefur óveruleg áhrif á heildarstærð Kaupþings á samstæðugrundvelli.
Að mati stjórna Kaupþings og SPRON hefur samruninn jákvæð áhrif á starfsemi félaganna á Íslandi. Samruninn er til þess fallinn að bæta þjónustu, auka arðsemi í rekstri og virði fyrir hluthafa, samkvæmt tilkynningu.
„Órói á fjármálamörkuðum undanfarin misseri hefur gert
það að verkum að auka þarf áherslu á hagræðingu og hagkvæmni í rekstri
fjármálafyrirtækja. Með sameiningu Kaupþings og SPRON er verið að
bregðast við breyttu rekstrarumhverfi og styrkja starfsemi félaganna á
íslenskum fjármálamarkaði. Við sameininguna verður lögð áhersla á að
viðhalda sérstöðu þeirra og markaðsstöðu. Útibú beggja verða áfram
rekin undir eigin merkjum," að því er segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.
Samruninn
er háður samþykki hluthafafundar SPRON og Fjármálaeftirlitsins. Þá er
samruninn einnig háður því að samkeppnisyfirvöld ógildi hann ekki eða
setji honum skilyrði sem stjórnir félaganna telja óviðunandi eða leiði
til þess að óhjákvæmilegt sé að leggja ákvörðun um samrunann að nýju
fyrir hluthafafund í SPRON. Samþykkis lánveitenda vegna samrunans hefur
þegar verið aflað. Áætlað er að hluthafafundur í SPRON verði haldinn í
byrjun ágúst. Fyrir þann fund verður lagt álit utanaðkomandi
fjármálafyrirtækis á því endurgjaldi sem kemur fyrir hlutafé í SPRON
við samrunann.
Sameinað félag mun ekki taka við rekstri,
eignum og skuldum, svo og réttindum og skyldum SPRON fyrr en öll
skilyrði samrunans hafa verið uppfyllt.
Kaupþing
hefur gert samning um kaup á 832.737.199 hlutum í Exista, annars vegar
af SPRON (340.965.708 hlutum) og hins vegar af
Kistu-fjárfestingarfélagi (491.771.491 hlut), sem notaðir verða sem
endurgjald í samrunanum og eru kaupin háð sömu skilyrðum og samruninn
sjálfur. Verð hlutanna í viðskiptunum er miðað við sama gengi og hér að
ofan greinir, skráð lokagengi á hlutum í Exista þann 30. júní 2008, eða
7,52 krónur fyrir hvern hlut.
Sameinað félag
Engin
breyting verður á samþykktum Kaupþings við samrunann né skráningu þess
á OMX Nordic Exchange á Íslandi og í Stokkhólmi. Ekki verður gefið út
nýtt hlutafé í Kaupþingi í tengslum við samrunann. Dótturfélög SPRON
verða dótturfélög sameinaðs félags.