Verð á hráolíu hækkaði um 35 sent í rafrænum viðskiptum á NYMEX markaðnum í New York í morgun. Er verð á hráolíu til afhendingar í ágúst nú 140,35 dalir tunnan en það fór hæst í 143,67 dali tunnan í gær. Lækkaði verð á hráolíu fyrir lokun markaða í gærkvöldi og var lokaverðið 140 dalir tunnan.
Í Lundúnum hækkaði verð á Brent Norðursjávarolíu um 57 sent í morgun og er 140,40 dalir tunnan.
Sérfræðingar á olíumarkaði segja að ýmislegt valdi því að olíuverð haldist jafn hátt og raun ber vitni. Þar megi nefna áhyggjur af olíubirgðum, hvort árás verður gerð á Íran og lágt gengi Bandaríkjadals. Virðast margir vera á því að olíuverð eigi eftir að fara yfir 150 dali tunnan á næstu vikum. Eins telja sérfræðingar líklegt að Seðlabanki Evrópu muni hækka stýrivexti á fimmtudag til þess að reyna að sporna gegn verðbólguþrýstingi. Verðbólga mælist nú 4% á evrusvæðinu og hefur aldrei verið jafn mikil.