Eigendur Bráðar ehf., rekstrarfélags Veiðimannsins hafa ákveðið að loka versluninni að Hafnarstræti 5 á haustmánuðum. Bráð rekur einnig verslanirnar Veiðihornið Síðumúla 8 og Sportbúðina Krókhálsi 5. Veiðimaðurinn hefur starfað í miðborginni í sjötíu ár.
Albert Erlingsson stofnaði Veiðiflugugerðina við Lækjartorg árið 1938. Árið 1940 flutti Albert starfsemina í Smjörhúsið Hafnarstræti 22. Síðar var verslunin flutt í Hafnarstræti 5 þar sem hún hefur verið starfrækt um árabil
Ákvörðunin um að loka versluninni var sársaukafull en erfitt hefur verið að horfa upp á hnignum miðbæjarins og samdrátt í verslun á sama tíma og aðrar verslanir fyrirtækisins blómstra sem aldrei fyrr, að því er segir í tilkynningu.
„Ekki er loku fyrir það skotið að Veiðimaðurinn verði opnaður á ný í gamla miðbænum þegar borgaryfirvöld framtíðarinnar hafa áttað sig á því að miðborgin verður aldrei lifandi án blómlegrar verslunar og skapa starfsumhverfi til að svo megi verða," að því er segir í tilkynningu.