Evrópusambandið og dönsk stjórnvöld hafa veitt sjö flugfélögum áminningu fyrir að brjóta samkeppnislög ESB með upplýsingagjöf á dönskum vefsíðum sínum. Flugfélögin sem um ræðir eru: Ryanair, Air Berlin, Air Baltic, SkyEurope, Aer Lingus, Brussels Airlines og Seat24.
Flugiðnaðurinn misbýður neytendum að sögn Meglenu Kuneva, sem fer með neytendamál hjá Evrópusambandinu. Gerist þetta þrátt fyrir að rannsókn hafi verið hrundið af stað í september á sölu flugfélaga á netinu. Segir hún alvarleg vandamál vera í farmiðasölu hjá flugfélögum „og er það gjörsamlega ólíðandi," segir Kuneva.
Flugfélögin sjö, en einhver þeirra hafa þegar fengið áminningu í öðrum ríkjum ESB, eru ásökuð um að hafa veitt ófullnægjandi upplýsingar um bókunarskilmála, verð og skilyrði um gildistíma flugmiða. Henrik Oee, umboðsmaður neytenda í Danmörku, segir að rannsóknin hafi náð til 13 útlendra flugfélaga sem reka ferðaþjónustu á netinu. Fimm þeirra hafa þegar gert úrbætur á vefjum sínum en sjö þeirra sem nefnd eru hafa ekkert gert til þess að bæta upplýsingar á vefjum sínum þrátt fyrir tilmæli þar að lútandi.