Rannsókn Kauphallar Íslands á umfangi viðskipta Landsbanka Íslands með íbúðabréf daginn sem ríkisstjórnin kynnti aðgerðir á fasteigna- og fjármálamarkaði hefur verið vísað til Fjármálaeftirlitsins.
„Okkar gögn benda til þess að ekki sé útilokað að um ójafnfræði meðal fjárfesta á markaðnum þennan dag hafi verið að ræða,“ segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar.
Hann tekur þó fram að í vísun málsins til Fjármálaeftirlitins felist ekki sakbending eða fullvissa um að brot hafi verið að ræða.
„En á grundvelli okkar gagna er ekki hægt að útiloka að þarna hafi fjárfestar haft mismunandi upplýsingar. Við teljum því mikilvægt að kanna málið til hlítar. En það kunna hins vegar að vera skýringar á því, sem frekari rannsókn af hálfu Fjármálaeftirlitsins mun leiða í ljós.“
Þann 19. júní sl. eftir lokun markaða tilkynnti ríkisstjórnin umfangsmiklar aðgerðir á fjármála- og fasteignamarkaði. Póstur frá Halldóri J. Kristjánssyni, bankastjóra Landsbankans og formanni Samtaka fjármálafyrirtækja, til framkvæmdastjóra samtakanna, sýnir að honum var kunnugt um aðgerðirnar áður en þær voru kynntar almenningi.
Þennan sama dag seldi Landsbankinn talsvert mikið af íbúðabréfum umfram það sem hann keypti, sem sést best ef viðskiptin eru borin saman við viðskipti annarra banka sama dag.