Um 76% stjórnenda í 400 stærstu fyrirtækjum landsins telja að aðstæður í efnahagslífinu séu frekar eða mjög slæmar, um 22% telja þær hvorki góðar né slæmar og einungis 2% telja þær góðar. Þetta kemur fram í ársfjórðungslegri könnun Capacent Gallup um stöðu og horfur í atvinnulífinu sem gerð er fyrir SA, Seðlabankann og fjármálaráðuneytið.
Þegar litið er hálft ár fram í tímann eru efnahagshorfur á hinn bóginn skárri. Telja stjórnendur hjá um 32% fyrirtækjanna að aðstæður verði þá betri, um 26% vænta óbreytts ástands en um 42% búast við verri aðstæðum.
Vísitala efnahagslífsins miðað við núverandi aðstæður er lægri en áður hefur komið fram í sambærilegum könnunum, allt frá september 2002. Meirihluti fyrirtækjanna býst við óbreyttum starfsmannafjölda en um fjórðungur hyggst fækka starfsfólki.
81% svarenda með nóg af starfsfólki
Könnunin sýnir að mjög hefur dregið úr spennu á vinnumarkaði. Hjá einungis 19% svarenda er nú skortur á starfsfólki en mikill meirihluta þeirra eða 81% telja sig hins vegar hafa nægjanlegt starfsfólk. Eru aðstæður að þessu leyti svipaðar á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Það er helst í iðnaði og framleiðslu (25%) og ýmissi sérhæfðri þjónustu (34%) að nokkur skortur er á starfsfólki, en í öðrum atvinnugreinum telur yfir 90% þátttökufyrirtækja framboð vinnuafls vera nægjanleg.
Fáir ráðgera að fjölga starfsfólki
Ráðningaráform á næstu sex mánuðum eru minni en fram hefur komið í könnunum undanfarin 4-5 ár eða svo. Um 16% þátttökufyrirtækja ráðgera fjölgun og um 26% búast við fækkun, en meirihluti fyrirtækjanna (58%) býst þó við óbreyttum starfsmannafjölda. Er útlit fyrir mesta fækkun í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu sem og í byggingarstarfsemi og veitum. Eina atvinnugreinin þar sem búist er við fjölgun er ýmis sérhæfð þjónusta.
Innlend eftirspurn minnkar
Um 41% fyrirtækja í könnuninni telja að innlend eftirspurn muni minnka nokkuð eða mikið á næstu sex mánuðum, um 45% búast við óbreyttri eftirspurn en einungis um 14% búast við nokkurri aukningu eftirspurnar. Eins og eftirfarandi mynd sýnir hefur bjartsýni um þróun innlendrar eftirspurnar farið minnkandi undanfarin hálft ár, rétt eins og mat á aðstæðum í efnahagslífinu.