FL Group hefur verið breytt í Stoðir, eignarhaldsfélag, í kjölfar endurskipulagningar á rekstri og fjárfestingastefnu félagsins. Stoðir hafa keypt kjölfestuhlut í Baugi Group fyrir 25 milljarða króna sem greiðast með hlutabréfum í Stoðum. Seljandi hlutarins er Styrkur Invest sem er í meirihlutaeigu Gaums.
Eins og áður sagði er kaupverð hlutarins 25 milljarðar króna og verður greitt fyrir hlutinn með hlutabréfum í Stoðum sem verður í nýjum hlutaflokki B bréfa sem bera ekki atkvæðisrétt. Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki hluthafafundar Stoða sem auglýstur verður síðar.
Stoðir með 40% í Baugi
Eftir viðskiptin munu Stoðir fara með tæplega 40% virkan eignarhlut í Baugi auk þess að eiga eignarhlut í B hlutaflokki félagsins sem ekki veitir atkvæðisrétt. Aðrir hluthafar í Baugi eru Kevin Stanford, Don McCarthy, Bague SA og starfsmenn félagsins. Stærsti hluthafi Stoða er Styrkur Invest.
Baugur hefur fyrir þessi viðskipti lokið við sölu allra eigna á Íslandi og mun eftirleiðis leggja alfarið áherslu á fjárfestingar í smásöluverslun í Bretlandi, Norðurlöndum og Bandaríkjunum. Meginhluti starfsemi Baugs verður staðsettur í London. Meðal stærstu fjárfestinga Baugs eru Iceland, House of Fraser, Mosaic Fashions, Hamley´s, Whistles, Goldsmiths, Magasin du Nord, Illum og Saks, að því er segir í tilkynningu.
Með kaupum á eignarhlut í Baugi eykst eigið fé Stoða um 25 milljarða króna en nánari upplýsingar um efnahag Stoða verða birtar í uppgjöri félagins fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2008 sem kynnt verður þann 29. ágúst nk.
Í framhaldi af viðskiptunum er stefnt að samnýtingu ákveðinna rekstrarþátta í starfsemi Stoða og Baugs og er m.a. gert ráð fyrir að starfsemi félaganna í London verði færð undir sama þak í húsakynnum Baugs.
„Fjárfestingafélagið FL Group verður nú eignarhaldsfélagið Stoðir. FL Group var upphaflega móðurfélag rekstrarfélaga í flugrekstri og ferðaiðnaði. Stærsta eign FL Group var Icelandair sem selt var í desember 2006 og nafnið FL Group var skírskotun til fyrra nafns Icelandair, Flugleiða. FL Group hefur tekið miklum stakkaskiptum síðustu misserin.
Starfsemi félagsins hefur verið endurskipulögð og fjárfestingastefnunni breytt. Nafnið FL Group endurspeglar því ekki núverandi starfsemi félagsins. Nafnið Stoðir lýsir vel meginviðfangsefnum félagsins sem kjölfestufjárfestis sem styður og eflir kjarnafjárfestingar sínar til lengri tíma litið. Nafnabreytingin er gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar sem auglýstur verður síðar," að því er segir í tilkynningu.
Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, segir í tilkynningu:
„Kaupin á kjölfestuhlut í Baugi Group eru mikilvægt skref fyrir félagið og til þess fallin að styrkja það verulega. Baugur hefur byggt upp sterka stöðu í mörgum þekktum erlendum vörumerkjum í smásöluverslun. Rekstur þessara félaga gengur vel og við höfum mikla trú á framtíð Baugs.
Hlutafjáraukning sem á sér stað samhliða þessum viðskiptum styrkir einnig eiginfjárgrunn félagsins verulega en það hefur einmitt verið meginviðfangsefni okkar frá því að endurskipulagning félagsins hófst í desember 2007. Okkur hefur þegar orðið vel ágengt og sjáum batamerki í rekstri félagsins þrátt fyrir mikla ágjöf á fjármálamörkuðum. Við munum halda áfram uppbyggingarstarfinu - og nú undir nýjum merkjum og nafni. Stoðir ríma vel við mikilvægasta hlutverk okkar, sem er að styðja og efla kjölfestufjárfestingar okkar í Glitni, TM, Landic Property og Baugi,” segir Jón í tilkynningu.