Heimasíða Framsýnar stéttarfélags Þingeyinga birtir frétt um það í dag að ef breyta eigi um gjaldmiðil sé rétt að taka upp matadorpeninga þar sem sú mynt eigi vel við á Íslandi um þessar mundir.
„Töluverðar umræður hafa verið undanfarið um gjaldmiðla. Meðan sumir tala um að leggja eigi niður íslensku krónuna og taka beri upp aðra mynt telja aðrir að rétt sé að halda í krónuna.
Öll þessi umræða tengist stöðu efnahagsmála á Íslandi en eins og vitað er steðja miklir erfiðleikar að okkur um þessar mundir. Þessi skjálfti sem einkennir íslenskt efnahagslíf er ekki síst tilkominn vegna ábyrðarleysis Íslendinga í fjármálum. Með síaukinni frjálshyggju og einka(vina)væðingu varð til nánast óheft frelsi á íslenskum fjármálamörkuðum en margir virðast hafa gleymt því að frelsinu fylgir ábyrgð.
Góður aðgangur að fjármagni hefur gert það að verkum að fjöldi fólks hefur offjárfest og stendur nú frammi fyrir miklum erfiðleikum. Þá er einnig lánsfjárkreppa í Evrópu sem auðveldar ekki fjármálastofnunum á Íslandi að ná í ódýrt fjármagn til að endurlána til einstaklinga og fyrirtækja. Rekstur fyrirtækja er því víða kominn í þrot og fréttir af uppsögnum hafa verið tíðar í fjölmiðlum undanfarið.
Þá gengur stjórnvöldum illa að höndla vandann því það reynir á ríkisstjórnina nú þegar gefur á í efnahagslífinu. Hins vegar er lítið mál að stjórna þegar uppgangur er í efnahagslífinu líkt og verið hefur síðasta áratug. Menn eru jafnvel farnir að tala um að stjórnin muni springa á næstu mánuðum þar sem hún komi ekki til með að ná samstöðu um aðgerðir. Spámenn heimasíðu stéttarfélaganna telja hins vegar að ríkistjórnin muni halda velli. Hverjir ættu svo sem að taka við? Þá heyrast raddir úr atvinnulífinu að rétt sé að moka yfir ástandið með því að ganga í Evrópusambandið og taka upp nýjan gjaldmiðil.
Heimasíðan hefur ekki skoðun á því hvort sækja eigi um aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Hins vegar hefur síðan áhuga á að blanda sér inn í umræðuna um gjaldmiðla. Heimasíðan hefur fram að þessu haft tröllatrú á íslensku krónunni og blæs á hugmyndir manna sem talað hafa fyrir því að Íslendingar ættu að taka upp evru, jen, jafnvel dollara eða norræna gjaldmiðla. Sitt sýnist hverjum í þessu stóra gjaldmiðlamáli.
Umræðan er í takt við allt bullið sem verið hefur í efnahagslífinu að undanförnu. Heimasíðan telur að ef breyta eigi um gjaldmiðil sé rétt að taka upp matadorpeninga þar sem sú mynt eigi vel við á Íslandi um þessar mundir og endurspegli allt ruglið sem verið hefur í efnahagslífinu undanfarin ár í allri frjálshyggjunni. Getur verið að frjálshyggjan sé rót vandans?," að því er segir á vef Framsýnar.