Eigið fé Geysis Green aukið um fimm milljarða

Ásgeir Margeirsson forstjóri GGE, Adam Wolfensohn og Ólafur Jóhann Ólafsson, …
Ásgeir Margeirsson forstjóri GGE, Adam Wolfensohn og Ólafur Jóhann Ólafsson, stjórnarformaður GGE. Geysir Green Energy

Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur og aðstoðarforstjóri Time Warner fjölmiðla-samsteypunnar og bandaríska fjárfestingarfélagið Wolfensohn & Company eru nýir hluthafar í Geysi Green Energy. Á síðustu vikum hefur eigið fé Geysis verið aukið um rúma fimm milljarða íslenskra króna, en þar af eru um tveir milljarðar frá Ólafi Jóhanni og Wolfensohn.

Ólafur Jóhann nýr stjórnarformaður

Á hluthafafundi sem haldinn var í Reykjanesbæ í dag tóku Ólafur Jóhann Ólafsson og Adam Wolfensohn sæti í stjórn Geysis og var Ólafur Jóhann kjörinn formaður stjórnar.

Ásgeir Margeirsson forstjóri félagsins segir í fréttatilkynningu mikinn feng í því að fá jafn öfluga og alþjóðlega virta fjárfesta og Ólaf Jóhann og Wolfensohn & Company til liðs við félagið.

„Ólafur Jóhann Ólafsson hefur um árabil verið virkur þátttakandi í alþjóðlegu viðskiptalífi sem aðstoðarforstjóri Time Warner fjölmiðlasamsteypunnar frá árinu 1999 og áður sem forstjóri fjárfestingafyrirtækisins Advanta í Bandaríkjunum.

Til hefur staðið um nokkurt skeið að Ólafur Jóhann Ólafsson kæmi inn í hluthafahóp Geysis og var aðkoma hans að félaginu síðast til skoðunar haustið 2007. Nú kemur hann að félaginu ásamt Wolfensohn & Company sem er fjárfestinga- og ráðgjafafyrirtæki í eigu James Wolfensohn fyrrum bankastjóra Alþjóðabankans og fleiri aðila," að því er segir í tilkynningu.

 Ólafur Jóhann Ólafsson segir í fréttatilkynningu að hann fjárfesti í Geysi vegna þess að hann hafi mikla trú á fyrirtækinu og þeim verkefnum sem það er að fást við. Hann segir mikil framtíðartækifæri liggja í nýtingu vistvænnar orku sem spennandi verði að takast á við á næstu misserum og árum.

„Geysir Green býr yfir mikilli þekkingu og reynslu á þessu sviði og hefur á tiltölulega stuttum tíma náð að festa sig í sessi sem eftirsóttur samstarfsaðili í jarðhitaverkefnum víða um heim,“samkvæmt tilkynningu.

Adam Wolfensohn, framkvæmdastjóri Wolfensohn & Company, segir að starfsemi Geysis falli mjög vel að þeim áherslum sem fjárfestingastefna þeirra byggi á. Wolfensohn & Company hefur komið að ýmsum verkefnum í orkuiðnaði sem tengjast endurnýjanlegri orku, sérstaklega verkefnum í þriðja heims löndum.

Adam Wolfensohn, sonur James Wolfensohn, er sérfræðingur á sviði umhverfismála en hann hefur stýrt sjóðum Wolfensohn fjölskyldunnar sem snúa að hreinni orkuframleiðslu og að stýrt verðbréfasafni hennar. Þá hefur hann meðal annars framleitt heimildarmynd um umhverfismál, „Everything's Cool“, sem frumsýnd var á Sundance kvikmyndahátíðinni í fyrra og séð um að kolefnisjafna tónleikaferðalag hljómsveitarinnar Pearl Jam árið 2003 gegnum samtökin Conservation International.

Frekari fjármögnun í undirbúningi

Á hluthafafundinum kom fram að hlutafé félagsins hefur verið aukið um sem svarar til 55 milljónum Bandaríkjadala, auk þess að við yfirtöku á dótturfélaginu Exorku International í Þýskalandi, var minnihlutaeigendum þar greitt með hlutabréfum í Geysi að andvirði um 1.200 milljónir króna.

Í undirbúningi er enn frekari fjármögnum félagsins og sér fyrirtækjaráðgjöf Glitnis um þann þátt. Þá hefur verið unnið í endurfjármögnun lána og hefur sú vinna gengið vel, að því er segir í tilkynningu.

Helstu eigendur Geysis Green Energy eru í dag: Atorka, (Renewable Energy Resources) 39,7%, Glacier Renewable Energy Fund (Glitnir o.fl.) 38,6%, VGK Invest (Mannvit) 8,8%, Wolfensohn & Co. 3,9%, Geodynamics 2,8% og Ólafur Jóhann Ólafsson, 2,6%.

Hvergi minnst á Goldman Sacks

Í fréttatilkynningu sem Geysir Green sendi frá sér í september í fyrra kom fram að allt útlit væri fyrir að bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs og Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og framkvæmdastjóri hjá Time Warner, eignist 8,5% hlut í Geysi Green Energy. Í tilkynningunni segir að viðræður um hlutabréfakaupin séu á lokastigi. Hvergi er minnst á Goldman Sacks í þeirri tilkynningu sem Geysir Green sendi frá sér í dag.

Nýja stjórn Geysis skipa: Ólafur Jóhann Ólafsson, formaður, Adam Wolfensohn, Einar Þorsteinsson, Eyjólfur Árni Rafnsson, Magnús Jónsson, Magnús Bjarnason og Þorsteinn Vilhelmsson. 

Frá hluthafafundi Geysir Green í hádeginu
Frá hluthafafundi Geysir Green í hádeginu Víkurfréttir/Hilmar Bragi
Frá hluthafafundi Geysir Green
Frá hluthafafundi Geysir Green Víkurfréttir/Hilmar Bragi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK