Hagnaður Alcoa, eiganda Fjarðaáls, dróst saman um tæp 24% á öðrum ársfjórðungi þrátt fyrir hækkun á álverði. Skýrist það að auknum kostnaði við hráefni og framleiðslu. Nam hagnaðurinn 546 milljónum dala eða 66 sentum á hlut samanborið við 715 milljónir dala eða 81 sent á hlut á öðrum ársfjórðungi í fyrra.
Tekjur Alcoa drógust saman um 6% og námu 7,6 milljörðum dala.
Er afkoman betri heldur en spáð hafði verið en að meðaltali spáðu greiningardeildir því að hagnaðurinn næmi 64 sentum á hlut og að tekjurnar yrðu 7,36 milljarðar dala. Hlutabréf Alcoa hækkuðu um rúm 6% eftir að greint var frá afkomu félagsins í rafrænum viðskiptum eftir lokun Kauphallarinnar í New York. Bréfin höfðu hins vegar lækkað um 3,22% á meðan opið var fyrir viðskipti í kauphöllinni. Mikil viðskipti voru með félagið á NYSE í dag.