Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur og aðstoðarforstjóri Time Warner-fjölmiðlasamsteypunnar, er nýr hluthafi í Geysir Green Energy og hann var kjörinn stjórnarformaður félagsins á hluthafafundi í gær.
Ólafur Jóhann sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að ný stjórn væri sammála því að félagið myndi í framtíðinni einbeita sér að færri og stærri verkefnum.
„Við munum fremur verða ráðandi í þeim verkefnum sem við ráðumst í og geta þannig betur hlúð að því sem við eigum,“ sagði Ólafur Jóhann.
„Í Þýskalandi er fyrirtækið byrjað að bora eftir heitu vatni. Þar er fyrirtækið með frekari leyfi til borana og verkefnastaðan lítur mjög vel út því orkuverð í Þýskalandi er mjög hátt og markaður fyrir græna orku er því mjög vænlegur í því landi,“ sagði Ólafur Jóhann.
Hann bindur einnig miklar vonir við samstarfsverkefni GGE við kínverska stórfyrirtækið Signopec um byggingu hitaveitna í Kína.