IndyMac, sem er einn stærsti íbúðalánasjóður Bandaríkjanna, er að hruni kominn af völdum lánsfjárkreppunnar, en sjóðurinn hefur aðsetur sitt í Kaliforníu.
Bandarísk yfirvöld hafa yfirtekið eigur bankans af ótta við að sparifjáreigendur komi að tómum kofanum vegna gjaldþrotsins.
Fram kemur á fréttavef BBC að þetta er næst stærsta fjármálastofnunin í sögu Bandaríkjanna sem fer á hausinn.
Í gær féllu hlutabréf í tveimur stærstu íbúðalánasjóðum Bandaríkjanna, Freddie Mac og Fannie Mae, um 50%.
IndyMac hafði átt í erfiðleikum með að safna fé og halda sér á floti í Kaliforníu, en ríkið er eitt þeirra sem varð hvað verst úti í kjölfar húsnæðis- og lánsfárskreppunnar.
Að sögn eftirlitsaðila höfðu sparifjáreigendur tekið út fé úr bankanum að andvirði 1,3 milljarða Bandaríkjadala undanfarna 11 daga.