Deila um stöðu íslenskra efnahagsmála er komin upp í lesendadálkum breska viðskiptablaðsins Financial Times. Í byrjun júlí andmæltu prófessorarnir Friðrik Már Baldursson og Richard Portes lýsingu nýsjálenska hagfræðiprófessorsins Roberts Wade á efnahagsmálum á Íslandi og nú hefur Wade svarað og vísar í nýja skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins máli sínu til stuðnings.
Wade, sem er prófessor við LSE í Lundúnum, var harðorður um íslenska hagstjórn í upphaflegri grein sinni. Þeir Friðrik og Portes, sem skrifuðu m.a. skýrslu um íslensk efnahagsmál fyrir nokkrum misserum, sendu bréf til FT og gagnrýndu Wade, sem svarar í dag.
Segir hann þar, að í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem kom út fyrr í júlí, sé lýst svipuðum niðurstöðum um ójafnvægi í efnahags- og peningamálum og hann hafði áður komist að.