Verð á áli í framvirkum samningum hefur slegið öll met á síðustu vikum og er nú yfir 3.300 Bandaríkjadalir tonnið í þriggja mánaða samningum og í tæpum 3.500 dölum í 27 mánaða samningum. Til samanburðar var álverðið 1.500-1.600 dalir þegar lagt var mat á arðsemi Kárahnjúkavirkjunar árin 2002-2003. Hækkanirnar hafa áhrif á ársreikning Landsvirkjunar og hefur eiginfjárstaðan styrkst eftir því sem raforkuverðið fylgir álverðinu.
Áhrif álverðsins á eiginfjárstöðu Landsvirkjunar má rekja til þess að í ársbyrjun 2007 voru innleiddir alþjóðlegir reikningsskilastaðlar sem fela í sér að dulin verðmæti, öðru nafni óefnislegar eignir, eru færð til bókar sem eign í ársreikningi.
Þar með er virði langtímasamninga á raforku til álfyrirtækjanna metið sem verðmæt eign í bókhaldi. Raforkuverðið fylgir sem sagt álverðinu og eykst verðmæti langtíma raforkusamninga því í takt við aukið verðmæti álframleiðslunnar.
Dæmi um þetta samspil er að 40 ára samningur Landsvirkjunar við Alcoa á Reyðarfirði er gerður með hliðsjón af heimsmarkaðsverði á áli.
Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir að þessi þróun hafi þau áhrif á getu Landsvirkjunar til að takast á við stórverkefni að bætt eiginfjárhlutfall hljóti alltaf að auðvelda lántöku. Verð á áli undanfarið ár hafi verið feikilega hátt og arðsemi Kárahnjúkavirkjunar hafi aukist eins og staðan sé núna.
Eiginfjárhlutfallið í árslok 2007 hafi verið um 31 af hundraði sem hafi ekki verið fjarri því sem það var þegar ráðist hafi verið í byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Fyrir tilstuðlan samninga um orkusölu til Fjarðaáls sé fjárhagur fyrirtækisins metinn sterkari í nýju reikningsskilastöðlunum.
Það sama gildi um sölu á raforku til álversins í Straumsvík og Norðuráls og um raforkusamninga við Fjarðaál að álverðið skilar sér í eiginfjárstöðunni, líkt og hækkandi verð á afurðum Járnblendiverksmiðjunnar, Elkem Ísland, á Grundartanga.
Má í þessu samhengi benda á að Landsvirkjun hefur gert upp í Bandaríkjadal frá og með síðustu áramótum og fara viðskipti við álfyrirtækin þrjú nú fram í þeirri mynt.