Álverðið í sögulegum upphæðum

Verð á áli í framvirkum samningum hefur slegið öll met á síðustu vikum og er nú yfir 3.300 Bandaríkjadalir tonnið í þriggja mánaða samningum og í tæpum 3.500 dölum í 27 mánaða samningum. Til samanburðar var álverðið 1.500-1.600 dalir þegar lagt var mat á arðsemi Kárahnjúkavirkjunar árin 2002-2003. Hækkanirnar hafa áhrif á ársreikning Landsvirkjunar og hefur eiginfjárstaðan styrkst eftir því sem raforkuverðið fylgir álverðinu.

Áhrif álverðsins á eiginfjárstöðu Landsvirkjunar má rekja til þess að í ársbyrjun 2007 voru innleiddir alþjóðlegir reikningsskilastaðlar sem fela í sér að dulin verðmæti, öðru nafni óefnislegar eignir, eru færð til bókar sem eign í ársreikningi.

Þar með er virði langtímasamninga á raforku til álfyrirtækjanna metið sem verðmæt eign í bókhaldi. Raforkuverðið fylgir sem sagt álverðinu og eykst verðmæti langtíma raforkusamninga því í takt við aukið verðmæti álframleiðslunnar.

Aukin arðsemi Kárahnjúka

Að sama skapi kemur það fram sem fjármagnstap í ársreikningi þegar álverðið lækkar á mörkuðum.

Dæmi um þetta samspil er að 40 ára samningur Landsvirkjunar við Alcoa á Reyðarfirði er gerður með hliðsjón af heimsmarkaðsverði á áli.

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir að þessi þróun hafi þau áhrif á getu Landsvirkjunar til að takast á við stórverkefni að bætt eiginfjárhlutfall hljóti alltaf að auðvelda lántöku. Verð á áli undanfarið ár hafi verið feikilega hátt og arðsemi Kárahnjúkavirkjunar hafi aukist eins og staðan sé núna.

Eiginfjárhlutfallið í árslok 2007 hafi verið um 31 af hundraði sem hafi ekki verið fjarri því sem það var þegar ráðist hafi verið í byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Fyrir tilstuðlan samninga um orkusölu til Fjarðaáls sé fjárhagur fyrirtækisins metinn sterkari í nýju reikningsskilastöðlunum.

Það sama gildi um sölu á raforku til álversins í Straumsvík og Norðuráls og um raforkusamninga við Fjarðaál að álverðið skilar sér í eiginfjárstöðunni, líkt og hækkandi verð á afurðum Járnblendiverksmiðjunnar, Elkem Ísland, á Grundartanga.

Má í þessu samhengi benda á að Landsvirkjun hefur gert upp í Bandaríkjadal frá og með síðustu áramótum og fara viðskipti við álfyrirtækin þrjú nú fram í þeirri mynt.

Keypti framvirka samninga

Móðurfyrirtæki Norðuráls, Century Aluminum, hefur fylgst vel með hækkunum og keypt upp framvirka samninga af alþjóðafyrirtækinu Glencore fyrir um 133 milljarða ísl. kr. með hlutabréfum og reiðufé. Century hafði gert framvirka samninga við Clencore um álverð en í þeim var miðað við mun lægra verð en nú er í boði á heimsmarkaði. Því taldi Century hagstæðara að taka yfir samningana, sem bendir til að fyrirtækið hafi trú á að álverðið muni haldast hátt næstu ár. Hlutabréfin komu úr nýlegu hlutafjárútboði félagsins, sem Glencore tók drjúgan hlut af.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK