Olíuverð var stöðugt á mörkuðum í morgun en það lækkaði um tæpa 7 dali tunnan í gær eftir að yfirlýsingar Bens Bernankes, seðlabankastjóra Bandaríkjanna þóttu benda til þess að erfiðleikar væru framundan í bandarísku efnahagslífi sem muni leiða til minni eftirspurnar.
Verð á hráolíu var 131,91 dalur í viðskiptum í Singapúr í morgun og hafði hækkað um 17 sent yfir daginn. Í gær voru miklar sveiflur á olíuverði á markaði í New York og fór verðið um tíma upp í 146,73 dali og niður í 135,92 dali en endaði í 138,74 dölum. Hæst komst olíuverðið í 147,27 dali á föstudag.
Í nýrri mánaðaskýrslu OPEC, sem kom út í dag, er því spáð að eftirspurn á heimsmarkaði muni aukast um 900 þúsund tunnur á dag á næsta ári sem er 100 þúsund tunnum minna en á þessu ári. Segir OPEC útlit fyrir að dragi úr hagvexti á heimsmarkaði og einnig hafi hátt olíuverð áhrif.